Verslun og þjónusta eru mitt sérsvið. Ég bý yfir áratuga reynslu af stefnumótun fyrir mörg af stærstu verslunar- og þjónustufyrirtækjum landsins, þar á meðal BYKO, Krónuna, Kringluna, Icepharma og Ó. Johnson & Kaaber.
Að skapa og miðla þekkingu er eitt af því skemmtilegasta sem ég geri. Ég hef haldið fjölda fyrirlestra um málefni tengd greininni, bæði á Íslandi og erlendis, þróað BS-nám í verslun og þjónustu við Háskólann á Bifröst, skrifað efni fyrir alþjóðlega fræðsluvettvanginn Circus Street og starfað náið með Samtökum verslunar og þjónustu síðustu ár. Með því vil ég leggja mitt af mörkum til að efla þekkingu starfsfólks og stjórnenda í greininni.
Ég er með doktorsgráðu í verslunarfræðum (omni-channel retailing) frá Leeds University Business School í Bretlandi, meistaragráðu frá sama skóla, B.Sc. gráðu í alþjóðamarkaðsfræði frá Háskólanum í Reykjavík og diplómu í stjórnendamarkþjálfun frá Opna háskólanum í Reykjavík.
Samhliða ráðgjöf og stjórnarsetu starfa ég sem lektor og fagstjóri BS-náms í verslun og þjónustu við viðskiptafræðideild Háskólans á Bifröst. Ég sit í stjórn FESTI og gegni stöðu stjórnarformanns í Útilíf. Áður hef ég setið í stjórnum Ormsson/SRX/TT3 og Rannsóknaseturs verslunarinnar.
Samspil menntunar og reynslu gefur mér dýpri skilning á því hvað skilar árangri – og gerir mér kleift að styðja fyrirtæki í átt að sjálfbærum vexti og langtímaárangri.